Komdu að veiða, með Páli Tryggvasyni
Translated into Icelandic by Inga Birna Pálsdóttir.
Í dag fögnum við öllu því fólki sem kennir okkur og börnunum okkar á náttúruna sem við búum í. Það er einstök gjöf að hafa einhvern í lífi sínu sem eyðir tíma með þér í náttúrunni og vekur áhuga þinn á henni. Hjá mér var það afi minn sem tók mig með sér hvenær sem hann fór að vinna í garðinum. Það að leika úti í náttúrunni, á milli blómanna og grænmetisins er ein af mínum fyrstu og gleðilegustu minningum og hófst þá ástarsagan sem ég á við móður náttúru. Alveg eins og afi minn fór með mig í garðinn sinn, hefur tengdafaðir minn tekið öll sín börn og barnabörn með þegar hann fer að veiða í Mývatni. Hann hefur veitt bleikju og urriða alla sína ævi og þekkir alla góðu staðina.
Veiði í Mývatni á sér langa sögu þar sem þetta fallega en grófa landsvæði býður ekki upp á mikinn landbúnað, þrátt fyrir að það hafi nú verið reynt! Mjög oft þurfti fólk að treysta mikið á fiskveiði til þess að lifa af, sérstaklega á erfiðum vetrarmánuðum. Páll Tryggvason, eða Palli eins og við öll köllum hann, og fjölskylda hans hefur haldið þessari hefð við, með því að kenna næstu kynslóðum allt sem þarf að vita um veiði í Mývatni. Hvenær sem börnin hans og barnabörn eru með honum við Mývatn, býður hann öllum sem vilja, að koma með til að setja niður eða vitja netanna. Þegar ég fór með í fyrsta skipti varð mér það ljóst að öll börnin vissu nákvæmlega hvað ætti að gera. Um leið og allir eru komnir í björgunarvesti fer báturinn af stað.
Á leiðinni að fyrsta neti bendir Palli reglulega á allar þær mismunandi fuglategundir sem sjást, og trúið mér, á Mývatni eru þær MARGAR! Börnin benda auk þess á alla þá fjölbreyttu hluti sem þau sjá á leiðinni. Hvenær sem Palli athugar hvert net eykst spennan, þar sem allir reyna að giska á hvort það sé fiskur í og eins hversu margir þeir gætu verið. Þegar fiskurinn er kominn um borð útskýrir Palli hvernig þekkja má mismunandi fiskategundir í sundur. Þegar komið er aftur í land fer hann beint í að hreinsa og flaka fiskinn. Enn og aftur svarar hann glaður öllum okkar spurningum og sýnir okkur skref fyrir skref hvað eigi að gera.
Á kvöldin borðum við svo fiskinn sem við veiddum og tölum um alla þá hluti sem við sáum þann daginn. Svo þið getið séð að Palli er ekki einungis að kenna börnunum um vatnið og allt það lífríki sem í því er, heldur einnig hvaðan maturinn kemur og hversu mikil vinna fer í að koma honum á borðið. Ég er persónulega mjög þakklát fyrir hans gjafmildi og þolinmæði, sem gefur börnunum tækifæri á að læra á náttúruna frá fyrstu hendi. Fólk eins og Palli gefur börnunum tækifæri til að læra á nýjan máta, fjarri skólum og bókum. Þessir kennarar leyfa börnunum að vera í náttúrunni og læra frá unga aldri hvernig á að fara um og meta virði hennar.