Er ég skrifa þennan pistil er ég stödd í Kanada, hér er ég búin að vera í næstum fimm og hálfa viku. Ég er búin að vera að heimsækja rannsóknarstofu Benedikt Hallgrímssonar (https://hallgrimssonlab.ca/) við Háskólann í Calgary (University of Calgary) í Alberta fylki í Kanada. Þau á rannsóknarstofunni sérhæfa sig í erfða- og formfræðilegum rannsóknum þar sem þau kanna flókin einkenni í sebrafiskum, músum og mönnum. En ég er komin hingað til að míkró-CT skanna nokkrar bleikjur.
Kannski hafið þið séð CT-skanna í eigin persónu eða bara í bíómyndum. CT-skannar eru risastór tæki sem geta fullt upp heilt herbergi og eru oft pínu eins og kleinuhringur í læginu. Míkró-CT skannar eru aðeins öðruvísi, til að byrja með eru þeir miklu minni og oftast eru þetta bara stórir kassar í staðin fyrir að vera eins og kleinuhringir í læginu.

Hvernig skannar þú fiska?
Það að míkró-CT skanna fiska hefur verið nokkuð áhugavert ferli. Hér að neðan mun ég fara gróflega yfir vinnuferlana mína. Fyrsta skrefið var að setja fiskana í vissa efnablöndu. Við þurftum að gera þetta svo að fiskurinn yrði nægilega stífur þegar við mundum skanna hann. Fiskarnir þurfa almennt að vera í efnablöndunni í u.þ.b. viku áður en þeir voru tilbúnir til að skanna. Þessi efnablanda var gerð með formalíni, sem er mjög hættulegt efni. Þess vegna þurfti ég alltaf að vera í slopp, með hanska á höndunum og grímu á andlitinu þegar ég var að vinna með efnið.

Þegar ég var að setja fiskana í skanna þurfti ég að setja þá í sérstakt sýna hylki. Engin hluti af fisknum mátti snerta hylkið beint. Þannig ég varð að vefja fiskunum mínum í plastfilmu, þeir fóru smá að líta út eins og „fiskivefjur“. Eftir þetta gat ég sett fiskin í sýna hylki og síðan sett hylkið í skannann sjálfan. Að lokum þurfti ég að vera viss að allar stillingar voru réttar svo var ég tilbúin að skanna.

Þar sem skannarnir þurftu að hafa mjög góða upplausn, tók það mjög langan tíma að skanna hvern fisk. Lengstu skannarnir mínir gátu tekið um þrjár klukkustundir bara fyrir einn fisk. Sem betur fer var hægt að skanna nokkra fiska í sköttum. Þannig ég gat undirbúið nokkrar fiska sem ég setti síðan alla í skanna og skannað yfir nóttina meðan ég var sofandi. Þegar allt þetta var búið var lokaafurðin mjög flottir skannar af fiski höfðum. Ég mun síðan nota þessa skanna til að skoða breytileika í lögun (í þrívídd) milli bleikju afbrigða og aldurshópa.


Mikilvægt að taka pásur
Jafnvel þó ég fór til Calgary til að vinna skiptir það líka miklu máli að nýta tímann sinn til að gera eitthvað skemmtilegt. Eitt af því mikilvægasta við svona vísindaheimsóknir er að kynnast öðrum vísindamönnum og sjá hvernig aðrir rannsóknarhópar (og Háskólar) gera sínar rannsóknir. En það skiptir líka máli að leyfa sér að vera smá túristi og kanna borgina/landið sem maður er að heimsækja. Til dæmis með því að fara í söfn eða í fjallgöngur í þjóðgörðum á svæðinu.
